Pólitískir sendiherrar í gestaíbúð

Ég var eitthvað að pirrast út af pólitískum stöðuveitingum sem svo sem eru til skammar á Íslandi, en þá komu bara yndisleg vinstri græn hjón og leigðu gestaíbúðina mína í viku og við höfum haft um nóg að ræða síðan fyrir helgi. Ég var búinn að gleym því hvað getur verið gaman að spjalla um pólitík. Það er bæði mannbætandi og skerpir mann í sannfæringunni. Ég er nú svoddan vingull að það liggur við að þau hafi sannfært mig um að vg og sjálfstæðisflokkurinn gætu alveg farið ágætlega saman í ríkisstjórn. Kannski það væri illskárra en framsókn áfram með hægri græna sem hækju?

Við höfum farið rækilega yfir stóriðnaðar og virkjanamálin og komist að raun um að sameiginlegir fletir geta fundist og Draumalandið er kannski heldur velskrifað áráðursrit eins og ég hef haldið fram fremur en heilagur sannleikur.

Við höfum líka fundið út að við höfum öll jafnlitla ást á "ónefnda manninum" eins og nú er farið að kalla hann, en hann virðist enn vofa yfir vötnum í pólitíkinni.

 

 


Pólitískir sendiherrar

Yfirleitt eru kvartanir heldur leiðigjarnar enda pirr og öfund sennilega oft nálægt.

Það verður samt að segjast að gleðilegt er að starfsmenn sendiráða hafi loksins tekið sig saman í andlitinu og mótmælt skefjalausri valdníðslu í embættisveitingum undanfarinna ára, sem m.a. hafa birst í skipunum sendiherra, en einnig eins og alþjóð veit t.d. í skipunum hæstarréttardómara nú og seðlabankastjóra! Það er makalaust hvernig þessi litla þjóð hefur umborið Dabba kóng og allar hans gerðir í mörg ár.

Kannski er það bara ég sem er svona vitlaus að hafa fundist eitthvað athugavert við þetta allt saman og hefur mér þó aldrei langað til að verða sendiherra (kannski seðlabankastjóri amk. hef ég menntun í þá átt, sem er meir en flestir stjórnmálamennirnir sem þar hafa setið, það er líka svo dæs jobb og velborgað), en núna sem sagt óska sendiráðsmenn þess að þessu linni og menn verði metnir og ráðnir eins og hjá siðmenntuðum þjóðum.

Já það er betra seint en aldrei. Lesi þetta einhver lofa ég að nöldra ekki á morgun!

Ég verð að bæta við að sendiherran hér í Frakklandi Tómas Ingi hefur að því ég best veit staðið sig alveg ágætlega, enda hefur hann mjög góða franska menntun og talar flotta frönsku sem flytur menn langt í Frans. Ég er alls ekki að hnýta í hann né neinn annan persónulega en þessi einkavinavæðing hefur verið fáránleg.

 

 


Að skilja sína þjóð

Sennilega hef ég verið of lengi erlendis. Ég er dálítið hissa á að fjórðungur þjóðarinnar virðist styðja vinstri græna. Mér finnst nú samt líka dálítið gaman að því að ég geti gengið að því vísu að amk. fjórðungur þjóðarinnar hugsar allt öðru vísi en ég. Raunar er ég viss um að þeir séu miklu miklu fleiri. Í alvöru talað þá óar mig við því ef Steingrímur Sigfússon og hans lið komast til valda t.d. í samvinnu við Samfylkinguna. Ég held að þá hrynji efnahagslífið saman og allt fari í stóra stopp. Já en maður á víst aldrei að vera með neinar áhyggjur.

Sápuópera Baugs með tragísku ívafi

Ég get nú ekki orða bundist eftir hraðflettingu  Moggans, eftir dag í garðyrkju þar sem ég rakst á smá klausu Ingibjargar Pálmadóttur. Í stöðu málsins fannst mér hún frábær! Hvað gerir skjólstæðingur Dabba nú? Hann er nú svo sem frægur fyrir bæði gáfur og hvaðeina en getur hann dæmt í þessu endemismáli??

Geta þessir einkavinir Dabba sem hann skipaði í hæstarétt dæmt í þessu máli?? Þá finnst mér að dómskerfið setji niður. Ég hef mikla samúð með Bónusfjölskyldunni, sem hefur unnið frábært starf í íslensku efnahagslífi og þeim sem tengjast henni eins og Ingibjörgu.

Vonandi nær réttlætið fram og þessir menn fái sýknu og vonandi sjá þeir sóma sinn í að eltast ekki við skaðabætur þó ærnar yrðu etv. Best er að

þessu máli ljúki hið fyrsta.


Vinstri Grænir og Víglundur

Sit hér með grágrænt umhverfið út um gluggan en í gær snjóaði í fyrsta sinn á þessum vetri eftir óvanaleg hlíindi síðustu tvær vikur sem varð til þess að maður var kominn í stuttbuxurnar. Var að ljúka lestri Moggans og finnst rétt að benda einu sinni amk. sjálfum mér á leiðara Morgunblaðsins.

Ég held ég hafi við lesturinn uppgötvað að eftir allt hef ég sterka pólitíska sannfæringu, sem er kannski best lýst með því að vera með nánast öllu sem Vinstri Grænir eru á móti. Guð forði Íslandi frá að sá flokkur komist til áhrifa! Þessi flokkur er að verða eins og talað var um í gamla daga gallharður forsjárhyggjuflokkur einhvers konar eftitlegukind eftir að Sovéteinræðið dó drottni sínum.

Víglundur aftur á móti horfir fram á veginn og bendir réttilega á þá orku sem okkur ber að virkja. Ég hef raunar alltaf verið einlægur virkjanamaður

og á þeirri skoðun að nýta beri hreina og umhverfisvæna orku Íslands til góðra hluta þ.m.t. álver því á þann hátt stuðlum við að minni mengun í heiminum. Það runnu raunar á mig tvær grímur þegar ég las Draumalandið hans Andra Snæs í fyrra en ég náði aftur áttum eftir svo sem tvo daga. Bókin var samt lygilega vel skrifað áróðursrit.

Það er ágætt að línur séu eitthvað að skírast en skelfing er þetta aumt kerfi hjá okkur.Það eru allar líkur á að Sjálfstæðisfl. verði að semja við einhvern hinna flokkanna og virðist þrátt fyrir allt Samfylkingin sé illskásti kosturinn.

Framsókn verður að fara í frí með Jóni vitra.

 


Já, prinsinn í Kambodíu sakaður um framhjáhald

Það er heimilislegt að vera kominn heim í heiðardalinn eftir skíðaferð í fjöllin - geta lesið moggan sinn á netinu og fylgst með BBC world sem fjallar um öll helstu vandamál heimsins eins og framanskráð fyrirsögn gefur okkur hugmynd um.

Þá er notalegra að lesa athugasemd Ellerts Schram sem snuprar réttilega Agnesi Bragadóttur og Mbl. fyir fráleitt slúður í garð Össurar á forsíðu Moggans á laugardag. Breytingar eru sjálfsagt nauðsynlegar á Mogga eins og annars staðar en stundum fara þeir yfir strikið og maður fær fortíðarþrá.

Það er erfitt að trúa ófærðarfréttum frá Íslandi í bliðviðrinu hér en annars skjálfa fjölmiðlar hér í Frakklandi af kosningaskjálfta enda rétt rúmur mánuður til kosninga. Forseti Frakklands skiptir vissulega meira máli en á Íslandi því hann er næstum eins og í USA sá sem öllu ræður. Ég hef verið að reyna að kynna mér þessa frambjóðendur og að gleymdum extrimistanum Le Pen þá eru hinir þrír sem til greina koma ótrúlega líkir. Frú Segoleme minnir um margt á Ingibjörgu Sólrúnu en öll koma þau þrjú hún, Sarkozy og Baeyrot úr sömu skólum og keppast um að láta mynda sig á landbúnaðarsýningum meðal velaldra nautgripa. Guðni ætti kannski að reyna það til að auka vinsældir framsóknar! Bayrot hefur það raunar framyfir Guðna að vera uppgjafabóndi eða svoleiðis meðan að Guðni er víst bara uppgjafa lögga og kann bara á mótorhjól. Já það er mikið leikhús þessi pólitík og núorðin velborguð á Íslandi m.v. það sem hér þekkist eða í Bretlandi. Mér er sagt að Blair muni allt að tífaldast í launum þegar hann hættir í júní. Mér lýst persónulega best á Sarkozy, en þeir sem mér hefur litist best á í pólitík hafa aldrei hlotið kosningu svo sennilega endar þetta með því að Beyrot verður forseti eins mikið og Frakkar hefðu nú þurft á kona að halda jafnréttisins vegna, sem hér er 50 árum á eftir Íslandi.


ESB aðild

Var að lesa Moggann á pdf sniðinu og get ekki stillt mig um að leggja nokkur orð í belg.

Á baksíðu er glennifyrirsögn um að ESB aðild gæti kostað 2,5 til 5 milljarða. Það er hvergi minnst á í frásögn af nefndarstörfum hvaða ávinnigur gæti verið í ESB aðild og það þarf að lesa smáletrið til þess að sjá að í dag eru greiðslur umfram gjöld talin 1,5 milljarðar svo í raun er verið að tala um einn milljarð. Þá er örugglega ekki talin t.d. ekki taldir allir þeir styrkir sem íslensk menningarstarfsemi fær út úr esb auk margs annars.

Það er einnig í blaðinu grein eftir þann gamla og í sjálfu sér greinda kommúnista Ragar Arnalds, sem í stað kommúnistatrúarbragðanna tók upp þegar að sovét hrundi svo gallharða þjóðernisafstöðu og hatur á esb að vandfundinn er annar eins.

Hann talar um afsal fiskveiðiheimildanna sem þjóðarmorð. Í fyrsta lagi hafa margir forustumenn ESB lýst því ítrekað yfir undanfarin tíu ár eða svo að Íslendingar gætu samið um þetta ákvæði. Í öðru lagi vill komminn Ragnar Arnalds, sem ég raunar dái mjög sem leikskáld, halda því fram að með þessu kvótakerfi sem hefur raskað byggð á Íslandi meir en nokkuð annað og gert fáa auðuga en flesta fátækari og heildarafrakstur auðlindarinnar minni, sé eitthvað til að státa sér af??? Ég held næstum að megi fullyrða að ESB hefði stýrt þessu betur heldur en Dabbi og Halldór! Það er með ólíkindum hversu íslenska þjóðin hefur tekið ráni þjóðarauðlindarinnar með miklu jafnaðargeði.

Það er eins og þegar að einhver blaðamaður á Íslandi segir að París sé skítaborg og þá um leið að þeir 50 milljón túristar (mun fleiri en nokkur önnur borg í heimi) séu asnar þá mætti kanski hlusta á þá forustumenn Íslands sem reka útsóknarfyrirtækin og orsaka ríkidæmi Íslands nú. Þeir allir leggja til að Ísland gerist hluti af ESB. Það er ekki bara samfylkingin.

Ég er sammála fyrrum aðalforstjóra General Electric að pólitík er ekki fyrir mig þar er gott fólk en í stað þess að ráðast að vandanum og auka samkeppnishæfni þá er stjórnsýslan allsráðandi í pólitíkinni - auk spillingarinnar sem ekki má ræða. 

 


Heim í heiðardalinn

Var á Íslandi í rúma viku og síðan í París í tvo daga áður en ég kom aftur hér í sveitaþorpið. 'island var yndislegt heim að sækja og maður finnur ræturnar. París glæsilegri en nokkurn tíma fyrr með háblómstrandi magnolíru, kamellíur og umfram allt brosandi Parísarbúa að sleikja sólskinið á vordögum í fallegustu borg í heimi. Það var einhver fáráða að skrifa greinar í DV sem ég las í flugvélinni á leið frá Íslandi um að ekki ætti að heimsækja París heldur Prag. Ástæðan var sennilega minnimáttarkennd yfir að skilja ekki frönsku, sem er alls ekki nauðsynlegt til að njóta Parísar en í sjálfu sér varla afsakanlegt ef menn vilja teljast sæmilega menntaðir. Franska er einfaldlega fegurst tungumála.

Ég sé að menn eru að andskotast út í Evrópubandalagið. Ég held að menn ættu að gera sér grein fyrir hvað þessi eining hefur gert á aðeins 15 árum og hvaða framtíð bíður hennar. Þetta er einfaldlega sterkasta eining efnahagslega og Ísland hefði betur fyrir löngu samið um aðild, en það er aldrei of seint í rassin gripið. Þessi skammtíma uppsveifla sem vissulega er dásamleg gæti orðið langtíma ef við nú hefðum vit á að sækja um að gerast aðilar að þeirri einingu sem við í raun erum. "If you cannot beat them, join them" Það á við um Kína og það á við um EEC. Það er ég að meina að í stað þess að óskapast yfir að allt sé að fara til fjandans vegna þess hvað ódýrar vörur frá Kína flæða yfir allt þá eigum við að sjálfsögðu að efla samstarf eins og þegar er raunar í algleymi við Kínversk fyrirtæki og selja þessum gríðarlega markaði okkar afurðir etc. etc. Heimurinn er á hraðfara breytingarferli og mér sýnist Íslendingar á flestum sviðum aðlaga sig að og jafnvel stuðla að breytingum.

Jæja ég sé að margir hafa heimsótt mig og ég þakka fyrir það og þess vegna ætla ég að hætta hér áður en menn hætta að nenna að lesa og lofa sjálfum mér að blogga í góðu skapi á næstu dögum.

Hér er sól og hitinn í skugganum komst í dag í 25 stig.


Möndlutrén blómstra

Meðan að menn halda vetrarhátíð á Fróni eru möndlutrén hér farin að blómstra. Það er óneitanlega fallegt, - en mánuði of snemma. Gott að lesa um að menn hafi náð einhverju samkomulagi um gróðurhúsaáhrifin annars gæti mín sveit hér í S-Frans fljótlega breyst í eyðimörk. Komst annars ekki inn á Moggann sem ég er nánast orðinn háður eins og nikótíninu hér forðum. Líður hálf nöturlega að geta amk. ekki fylgst með andlátsfréttunum.Útvarp hér er ekki hægt að opna þar flæðir maddamma Segouleme um allar trissur, sem betur fer bætir gamla gufan það upp á netinu. Ég hef lesið talsvert af bloggi síðustu daga en einhvern veginn er kraninn minn minna lekur en oft og þá er bara best að þegja. Eitt langar mig þó að minnast á af því ég hef flækst hér óbeint í dómstólamál sem túlkur fyrir breskan kunningja minn og svo hefur maður náttúrlega verið að fylgjast með öllum þessum dómsmálum á Íslandi síðustu misseri og nú síðast í gær að lesa mér til mikillar ánægju um að 'IAV málinu hefði verið vísað frá. Við eigum á Íslandi dómstóla sem virka. Ég held það sé ekki hægt að segja um franska dómstóla. Þeir eru ótrúlega óvirkir og ósanngjarnir, enda gerir fólk hér ekki ráð fyrir því að þeir séu réttlátir.Það er sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá en ég er alltaf að sannfærast betur og betur um hvað við eigum þrátt fyrir allt gott þjóðríki. Veðrið er samt betra hér og hananú.

Pólitík og blogg

Kær vinur minn segir að bloggarar séu eins og lekir kranar sem ekki sé hægt að þétta. Það má rétt vera en þessa viku sem ég hef varið sjálfsagt samtals 10 stundum í að skoða íslenskt blogg þá sé ég mér til mikillar gleði að fjöldi íslendinga hefur brennandi áhuga á stjórn- og þjóðmálum. (sennilega það sama?)

Mér fannst frábært að lesa pistil Margrétar Sverrisdóttur um hvers vegna hún hefur þennan áhuga og ég held að Ísland sé í nokkuð góðum málum meðan við eigum slatta af slíku fólki, sem mér sýnist vera staðreyndin.

Það var einnig hræðilega satt að lesa pistil hins aldna foringja Sverris um kvótagróðann og spillingu Dabba og Dóra. Þetta andlit spillingarinnar og valdagræðginnar hjá þeim félögum, sem var eiginlega ástæða þess að ég tók mér búsetu hér í Provence.

Ég er oft að velta því fyrir mér hvort Geir Haarde sem mér lýst annars svo ágætlega á ætlar að víkja frá stefnu Hannesar Hólmsteins-Davíðs og Friedmans komist hann áfram til valda? Mér finnst það enn heldur óljóst. Hann leiðréttir í fáu kjör aldraðra. Mér voru að berast þær fréttir að einn af okkar allra bestu rithöfundum Sigurðar A. Magnússon hefði 80 þús til að framfleita sér! Er nú ekki einhver sem getur gert eitthvað í svona máli?

Þó Sigurður A. hefði aðeins skrifað "Undir Kalstjörnu" væri hann meira en verður listamannalauna í heiðursflokki en auk þess hefur hann skrifað heilt fjall af góðu efni, ljóðum, þýðingum o.s.frv.frv. Ef einhver les þetta blogg og þekkir mann sem þekkir mann please!

Varði morgninum annars í að leiðbeina nemanda í Beethoven sónötu og e.h. fór mestur tíminn hjá mér í að spila aðra fyrir konu mína. Það var mikill maður hann Lúðvík og hver maður ríkur sem nær að kynnast honum. 


Næsta síða »

Um bloggið

Ármann Örn Ármannsson

Höfundur

Ármann Örn Ármannsson
Ármann Örn Ármannsson
áhugamaður um þjóðmál \%a búsettur síðustu 5 ár að mestu í efra Provence í Frakklandi og stundar þar útivist,píanókennslu ogfrístundabúskap. Fyrrum framkvæmdastjóri Ármannsfells h.f. og viðskiptafræðingur

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband